top of page

ANDRI ICELAND

Almennir viðskiptaskilmálar
 

Eftirfarandi eru almennir samningsskilmálar („skilmálarnir“) sem gilda á milli Andri Iceland, kt. 690818-0430, Fiskislóð 53, 101 Reykjavík („félagið“) og viðskiptavina félagsins („viðskiptavinur“). Skilmálarnir gilda frá 12. janúar 2022. 

Með því að kaupa vörur af félaginu eða nýta sér þjónustu þess, eins og hún er skilgreind að neðanverðu, veitir viðskiptavinur félagsins skilmálunum óskilyrt samþykki sitt. 

1. Þjónusta og vörur

 1. Félagið veitir viðskiptavinum sínum margvíslega þjónustu í tengslum við andlega og líkamlega heilsu, þ.á.m. í gegnum einkatíma, vinnustofur, námskeið og skipulagðar heilsuferðir („þjónusta“). 

 2. Félagið kann að bjóða viðskiptavinum ýmsar vörur til kaups á hverjum tíma („vörur“). 

2. Greiðsla og endurgreiðsla

 1. Verð fyrir þjónustu eða vörur getur breyst án fyrirvara, en í slíkum tilvikum er viðskiptavini tilkynnt um breytinguna áður en hún tekur gildi. Verð sem birt eru á vefsíðu félagsins innihalda virðisaukaskatt.

 2. Félagið tekur við greiðslu með debet- og kreditkortum,  peningum og millifærslum. Gengið skal frá kaupum á þjónustu, vöru eða gjafakorti fyrir afhendingu. Þó er heimilt að greiða fyrir þjónustu með greiðsludreifingu en fyrsta greiðslan skal vera staðgreidd á kaupdegi. Síðari greiðslur eru innheimtar í byrjun hvers mánaðar óháð kaupdegi og er eindagi 7. hvers mánaðar. Berist greiðsla ekki í síðasta lagi á eindaga kann viðskiptavini að  berast bréf til áminningar en dráttarvextir reiknast frá gjalddaga. Berist greiðsla ekki innan þriggja mánaða áskilur félagið sér rétt til að loka aðgangi viðskiptavinar að þjónustunni fyrirvaralaust uns vanefndum lýkur. 

 3. Viðskiptavinur hefur 14 daga frá afhendingardegi vöru til að hætta við kaupin með skriflegri tilkynningu til félagsins með tölvupósti á hi@andriiceland.com og fá endurgreitt að því tilskildu að varan sé ónotuð og í upprunalegum umbúðum og hún sé endursend fyrir innan 14 daga. Viðskiptavinur ber þó kostnað af því að skila vörunni. Þrátt fyrir framangreint er viðskiptavinur þó ábyrgur fyrir rýrnun á verðgildi vöru sem stafar af meðferð hennar, annarrar en þeirrar sem nauðsynleg er til að staðfesta eiginleika, einkenni og virkni hennar. 

 4. Gjöld fyrir þjónustu eru almennt ekki endurgreidd, óháð mætingu. Viðskiptavinur hefur þó 14 daga frest frá kaupdegi þjónustu til að falla frá kaupum með skriflegri tilkynningu til félagsins með tölvupósti á hi@andriiceland.com og fær viðskiptavinur þá endurgreiðslu innan 14 daga frá móttöku tilkynningar, sbr. þó gr. 2.5 og 2.6. Hafi þjónusta verið nýtt að hluta þegar fallið er frá kaupum lækkar þó endurgreiðslan hlutfallslega sem nemur nýttri þjónustu fram til þess að fallið er frá kaupum. Hafi félagið veitt þjónustu að fullu innan 14 daga frestsins, óháð mætingu viðskiptavinar, fellur réttur til að falla frá kaupum þjónustu niður.

 5. Í tengslum við ákveðna tegund þjónustu fær viðskiptavinur sent kennsluefni með tölvupósti í beinu framhaldi af kaupum á þjónustu og áður en námskeið hefst. Kennsluefnið er órjúfanlegur hluti þjónustunnar og nemur því 80% af heildarverði hennar. Þegar viðskiptavinur kaupir þjónustu þar sem ofangreint á við veitir hann fyrirfram samþykki sitt fyrir því að afhending á kennsluefninu fari fram áður en frestur skv. gr. 2.4 rennur út sem og að með móttöku kennsluefnisins fellur réttur viðskiptavinar til að falla frá kaupum niður. 

 6. Félagið býður upp á pakkaferðir í formi skipulagðra heilsuferða sem innihalda akstur til og frá áfangastað og gistingu auk námskeiðs á áfangastað. Berist félaginu afpöntun á skipulagðri heilsuferð meira en 60 dögum fyrir upphaf ferðar á viðskiptavinur rétt á 100% endurgreiðslu heildarupphæðar ferðar. Berist afpöntun aðeins 59 dögum fyrir upphaf ferðar, eða síðar, er heildarupphæð ferðar óendurkræf. Afpantanir skulu sendar til félagsins með tölvupósti á hi@andriiceland.com. Félagið áskilur sér rétt til að aflýsa pakkaferð gegn fullri endurgreiðslu til viðskiptavinar nái fjöldi skráðra þátttakenda ekki lágmarksfjölda.

 7. Viðskiptavini er ekki heimilt að að framselja aðildarkort að þjónustu til annars aðila. Ef það er gert getur viðskiptavinur ekki geymt rétt sinn til skemmri eða lengri tíma með því að leggja inn aðildarkort sitt að þjónustu.

3. Persónuvernd

 1. Félagið virðir friðhelgi viðskiptavina sinnaog tekur hana alvarlega. Allar persónuupplýsingar sem félagið kann að safna og meðhöndla í starfsemi sinni eru háðar trúnaði og verða ekki gefnar eða seldar þriðja aðila. Söfnun, nýting og önnur meðhöndlun persónuupplýsinga fer fram í samræmi við persónuverndarstefnu félagsins eins og hún gildir á hverjum tíma. 

 

4. Öryggisskilmálar og aflétting ábyrgðar

 1. Viðskiptavinur verður að hafa náð að minnsta kosti 18 ára aldri til að hefja áskrift að þjónustu eða nýta sér hana að öðru leyti. 

 2. Viðskiptavinur viðurkennir sérstaklega og samþykkir að félagið veitir ekki læknisráðgjöf og þjónusta þess kemur ekki í staðinn fyrir faglega læknisfræðilega greiningu, meðferð eða ráðgjöf. Ennfremur viðurkennir viðskiptavinur að þjónustan sem keypt er af félaginu getur falið í sér krefjandi og erfiðar æfingar sem snúast um, en takmarkast ekki við, ýmsar kuldameðferðir. Félagið ráðleggur viðskiptavini sérstaklega að stunda ekki slíkar krefjandi æfingar ef viðskiptavinur hefur einhvern grun um að vera læknisfræðilega óhæf(ur) til þess. Hafi viðskiptavinur minnsta grun um að vera haldin(n) sjúkdómi af einhverju tagi eða öðrum líkamlegum kvillum ráðleggur félagið viðskiptavini að gangast undir heilsufarsskoðun eða leita ráða og samþykkis hjá lækni eða öðru hæfu heilbrigðisstarfsfólki áður en þátttaka í einhverju prógrammi, æfingu, þjálfun, námskeiði, hreyfingu eða öðru sem felst í þjónustu félagsins hefst. Í öllum tilvikum samþykkir viðskiptavinur skýrt og skilmerkilega að þátttaka í þessari þjónustu sé algjörlega samkvæmt eigin ákvörðun og áhættu, og á eigin ábyrgð, og að þú leysir fyrirtækið að fullu undan ábyrgð á hvers kyns tjóni sem kann að hljótast af þjónustunni. Enn fremur, til að taka af allan vafa, samþykkir viðskiptavinur að  kaup á áskrift hjá félaginu eða nýting þjónustu þess er staðfesting á færni til að stunda þær líkamlegu athafnir og kröfur sem þjónustan kann að hafa í för með sér. Viðskiptavinur samþykkir að axla alla áhættu og ábyrgð fari viðskiptavinur út fyrir líkamleg takmörk sín og getu. 

 3. Viðskiptavinur og erfingjar viðskiptavinar falla frá hvers kyns kröfum á hendur félaginu, svo og eigendum þess, starfsmönnum eða öðrum viðurkenndum umboðsmönnum, þar á meðal óháðum verktökum, („aðilarnir“) og aflétta gagnvart aðilunum hvers kyns ábyrgð, kröfum og/eða málsástæðum sem kunna að koma upp vegna meiðsla eða tjóns af öðru tagi sem stafa af veitingu þjónustu félagsins.

 4. Viðskiptavinur samþykkir að skilmálarnir skulu vera bindandi fyrir erfingja, framsalshafa og hverja aðra þá sem kunna að gera tilkall til viðskiptavinar eða í tengslum við viðskiptavin.

5. Gildandi lög og lögsaga

 1. Gildi, gerð og túlkun þessara skilmála og hvers kyns kröfur, ágreiningar eða dómsmál sem kunna að stafa af eða tengjast skilmálunum, sem og hvers kyns ósamningsbundnar skuldbindingar, skulu lúta íslenskum lögum og verða túlkuð í samræmi við íslensk lög.

 2. Félagið og viðskiptavinur sem notar þjónustu þess samkvæmt skilmálum þessum samþykkja að hvers kyns kröfur, ágreiningur eða mál sem kunna að rísa í tengslum við skilmálana eða þjónustu félagsins skulu lúta lögsögu íslenskra dómstóla.

 

Reykjavík, 12. janúar 2022.

bottom of page